"London verður sprengd"

Lögreglumenn leita vísbendinga í London í dag.
Lögreglumenn leita vísbendinga í London í dag. Reuters

Bílsprengjurnar sem fundust í London og voru gerðar óvirkar áður en þær ollu tjóni bera öll einkenni hópa á borð við al-Qaeda, að því er haft er eftir sérfræðingum í Bretlandi í dag. Tímasetning tilræðanna kann að hafa miðast við stjórnarskiptin, er Gordon Brown tók við af Tony Blair, eða koma í kjölfar aðalstignarinnar sem rithöfundinum Salman Rushdie var veitt.

"Það leikur enginn vafi á því að þetta ráðabrugg á rætur að rekja til Miðausturlanda," sagði óháður öryggismálagreinir í viðtali við fréttastofuna AFP. "Það sést á því hvernig sprengjurnar voru frágengnar. Þetta er einkenni Hezbollah og Hamas í Líbanon og Palestínu, og hópa á borð við al-Qaeda í Írak."

Leit stendur enn að ökumönnum bílanna tveggja sem sprengjunum var komið fyrir í. Í þeim var mikið af gashylkjum og nöglum. Bílunum hafði verið lagt í miðborginni.

Skilaboð sem birt voru á spjallsvæði á netinu, skömmu áður en sprengjurnar fundust, virðast benda til tengsla við íslamista. "London verður sprengd," sagði í skilaboðunum, sem birt voru á spjallsvæðinu Al-Hesbah, sem al-Qaeda hefur nokkrum sinnum notað.

Fjölmargir heittrúaðir íslamistar hafa harðlega mótmælt aðalstigninni sem Elísabet Englandsdrottning veitti Salman Rushdie, en margir telja hann hafa svívirt íslam með skáldsögunni Söngvar Satans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert