Erkibiskup biður fórnarlömb kynferðisofbeldis afsökunar

Roger Mahony, kardináli í Los Angeles í Bandaríkjunum, bað í gær fórnarlömb kynferðisofbeldis kaþólskra presta í erkibiskupsdæminu afsökunar á því sem þau hefðu mátt þola. Þá sagði hann að þær skaðabætur sem kirkjan hafi samþykkt að greiða þeim geti ekki keypt æsku þeirra og sakleysi. "Það er engin leið að fara til baka og gefa þeim aftur það sakleysi sem tekið var frá þeim,” sagði hann. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

“Það er ómögulegt að veita fórnarlömbunum það sem ég helst vildi gefa þeim þ.e. að þau yrðu aftur þau sem þau voru upphaflega,” sagði hann. “Þetta hefði ekki átt að gerast. Þetta má aldrei aftur gerast.”

Kaþólska kirkjan í Los Angeles hefur samþykkt að greiða yfir fimm hundruð manns, sem talið er að hafi orðið fyrir kynferðislegri ofbeldi að hálfu kirkjunnar manna. Eftir á að fara með samkomulag kirkjunnar við fórnarlömbin fyrir dómstóla og fá formlegt samþykki fyrir samningnum. Kveður hann á um að kirkjan greiði fórnarlömbunum 660 milljónir dala, tæplega 40 milljarða króna.

Þetta eru hæstu skaðabætur sem kaþólska kirkjan hefur greitt frá því að hneykslismál tengt kynferðislegu ofbeldi kirkjunnar manna kom upp á yfirborðið árið 2002 en með þessu samkomulagi hefur kaþólska kirkjan í Bandaríkjunum greitt um tvo milljarða dala frá árinu 1950.

Frá árinu 2002 hafa tæplega eitt þúsund manns kært starfsmenn kaþólsku kirkjunnar í Kaliforníuríki. Samkvæmt skýrslu sem gefin var út árið 2004 hafa yfir fjögur þúsund kaþólskir prestar í Bandaríkjunum verið ásakaðir um kynferðislegt ofbeldi á síðustu fimmtíu árum.

Roger Mahony, kardináli í Los Angeles í Bandaríkjunum,
Roger Mahony, kardináli í Los Angeles í Bandaríkjunum, Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert