Rússar fresta „beinskeyttum“ aðgerðum gagnvart Bretum

Deilan snýst um þennan mann, Andrei Lúgóvoj, sem er talinn …
Deilan snýst um þennan mann, Andrei Lúgóvoj, sem er talinn hafa banað Alexander Lítvínenkó. AP

Rússnesk stjórnvöld sögðu í dag að fljótlega megi vænta „beinskeyttra“ aðgerða í stjórnmáladeilu þeirra við Breta. Til stóð að Rússar myndu tilkynna um mótvægisaðgerðir gegn breskum stjórnvöldum í dag, en Rússar ákváðu að fresta því.

„Viðbrögð okkar verða beinskeytt og viðeigandi. Bresk stjórnvöld munu fá að vita af þeim fljótlega,“ sagði Alexander Grushko, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, í í sjónvarpsviðtali.

„Við munum hinsvegar taka hagsmuni almennra borgara til greina - ferðamanna, þátttakenda í menningarlegum og akademískum samskiptum og fyrirtækja. Við viljum ekki að þeir þurfi að líða fyrir aðgerðir [stjórnvalda í] London,“ sagði Grushko.

Rússneska utanríkisráðuneytið sagði fyrr í dag að Rússar væru að undirbúa „viðeigandi aðgerðir“ sem yrðu brátt afhjúpaðar sem svar við aðgerðum Breta sem vísuðu fjórum rússneskum ríkiserindrekum úr landinu. Auk þess tilkynntu bresk stjórnvöld ferðatakmarkanir á hendur rússneskra embættismanna.

Grushko gaf í skyn að Rússar myndu ekki gjalda í sömu mynt, þ.e. vísa breskum ríkiserindrekum frá Moskvu líkt og búist hafði verið við. Grushko sagði að ef gripið hefði verið til slíkra aðgerða þá hefði fækkað um 80 manns hjá breska sendiráðinu í Moskvu.

Í gær greindu Bretar frá því að aðgerðirnar væru svar við afstöðu Rússa í Lítvínenkó-málinu, en Rússar hafa neitað að framselja fyrrum rússneska njósnarann Andrei Lúgóvoj sem grunaður er um morðið á Alexander Lítvínenkó.

Rússar segja það andstætt stjórnarskrá landsins að framselja sína eigin ríkisborgara til annarra landa svo hægt sé að rétta yfir þeim. Bretar segja hinsvegar að samkvæmt alþjóðasamningum, sem Rússar hafa undirritað, sé þetta mögulegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert