Stjórnvöld í Panama óska eftir framsali Noriega

Stjórnvöld í Panama ætla að óska eftir því að Manuel Noriega, fyrrum einræðisherra í landinu, verði framseldur er hann verður látinn laus í september næstkomandi. Noriega hefur ekki afplánað tuttugu ára dóm vegna morðs en Frakkar hafa þegar óskað eftir að hann verði framseldur vegna peningaþvættis.

Martin Torrijos, forseti Panama, hefur neitað orðrómi um að komist hafi verið að samkomulagi um að Noriega verði framseldur til Frakklands og segist vona að hann verði fluttur til Panama þar sem hann geti afplánað refsingu sína.

Noriega, sem var einráður í Panama frá 1983 til ársins 1989, var sakfelldur fyrir eiturlyfjasmygl í Bandaríkjunum árið 1990. Hann var dæmdur til 30 ára fangelsisvistar en verður látinn laus vegna góðrar hegðunar í september nk. Í Panama var hann dæmdur í 20 ára fangelsi fyrir að hafa fyrirskipað morðið á Hugo Spadafora, sem var pólitísku andstæðingur hans árið 1985.

Árið 1999 var Noriega svo dæmdur til fangelsisvistar fyrir peningaþvætti með aðstoð franskra banka. Lögfræðingar Noriega segjast munu gera allt sem í sínu valdi stendur til að koma í veg fyrir að hann verði framseldur til Frakklands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert