Áfram skúraveður og flóðahætta í Bretlandi

Gert hefur verið við Castlemeads háspennustöðina í Gloucester á Bretlandi og er rafmagn því komið á á 48.000 heimilum á Bretlandi sem urðu rafmagnslaus vegna flóða í stöðinni í gær. Vatn komst hins vegar ekki inn á Walham rafstöðina, sem sér um 250,000 manns fyrir rafmagni, eins og óttast var í gær.

Að minnsta kosti 350.000 manns eru þó enn án rennandi vatns í Gloucesterskíri og samkvæmt opinberum upplýsingum hefur vatn flætt inn á allt að 10.000 heimili í Worcester, Warwick, Hereford, Lincoln, Gloucester, Oxford og Berk. Þá eru líkur taldar á að vatn flæði inn á enn fleiri heimili á næstu dögum.

Thames áin flæddi þó ekki yfir bakka sína í Abingdon og Henley í Oxford nótt líkt og óttast hafði verið en flóðahætta er þó enn talin töluverð ofar með ánni.

Veðurfræðingar spá áframhaldandi skúraveðri á Bretlandi næstu daga og gert er ráð fyrir ausandi rigningu á fimmtudag. Er þá talin töluverð hætta á að ár flæði yfir bakka sína á ný.

Björgunarsveitarmenn reyna nú að komast að Tewkesbury's Mythe vatnsveitunni til að koma rennandi vatni á þau 140.000 heimili í Tewkesbury, Gloucester og Cheltenham sem eru vatnslaus. Vatnsveitan Severn Trent segir þó ekki von á því að vatnsdreifing verði komin í eðlilegt horf fyrr en eftir eina til tvær vikur. Þá segir talsmaður breska hersins að gert sé ráð fyrir að herinn dreifi þremur milljónum vatnsflaska á dag þar til vatnsdreifing kemst í eðlilegt horf.

Tim Brain, yfirmaður lögreglunnar í Gloucester hvatti fólk til þess í dag að sýna stillingu og spara vatn. "Það er til nóg vatn til persónulegra nota. Það er mikilvægt að fólk haldi áfram að fara sparlega með vatn og að það missi ekki stjórn á sér. Komi fólk fram af stillingu, þolinmæði og fyrirhyggju er til nóg vatn handa öllum,” sagði hann.

Frá Tewkesbury í Mið-Englandi
Frá Tewkesbury í Mið-Englandi Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert