Karl Rove að segja af sér

Karl Rove og George W. Bush við Hvíta húsið nýlega.
Karl Rove og George W. Bush við Hvíta húsið nýlega. Reuters

Karl Rove, helsti pólitíski ráðgjafi Georges W. Bush, Bandaríkjaforseta, ætlar að segja af sér embætti aðstoðarstarfsmannastjóra Hvíta hússins í lok ágúst. Rove lagði línurnar fyrir kosningabaráttu Bush fyrir forsetakosningarnar árin 2000 og 2004. Rove hefur verið umdeildur í Washington og tengst ýmsum málum, sem hafa gert Bandaríkjastjórn erfitt fyrir, nú síðast brottrekstri átta alríkissaksóknara, sem þingnefndir eru að rannsaka.

„Mér finnst þetta bara vera tímabært," segir Rove í viðtali við Wall Street Journal í dag. „Það er alltaf nóg að fást við hér en ég verð að gera þetta vegna fjölskyldu minnar."

Rove hefur átt erfitt uppdráttar frá árinu 2003 þegar Joseph Wilson, fyrrverandi sendiherra, sakaði hann um að hafa lekið nafni Valerie Plame, eiginkonu sinnar, til fjölmiðla. Plame var þá starfsmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA og starfaði þar með leynd.

Saksóknarar komust að þeirri niðurstöðu, að ekki væri ástæða til að ákæra Rove fyrir nein brot. Lewis Libby, fyrrum starfsmannastjóri Dicks Cheneys, varaforseta, var hins vegar ákærður og dæmdur fyrir að hindra framgang réttvísinnar í tengslum við málið.

Þegar Wall Street Journal spurði Rove hvort hann teldi sig hafa gert mistök á meðan hann starfaði í Hvíta húsinu svaraði hann: „Ég mun halla mér aftur í hægindastólnum í september og hugsa um það."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert