Blóð í íbúð ekki úr Madeleine

Madeleine McCann.
Madeleine McCann. Reuters

Blóðleifar, sem fundust í og við íbúð í Portúgal þar sem fjölskylda ensku stúlkunnar Madeleine McCann bjuggu, eru ekki úr stúlkunni heldur karlmanni. Breska blaðið The Times segir frá þessu í dag og jafnframt, að lögregla í Portúgal telji að Madeleine hafi beðið bana nóttina sem hún hvarf úr íbúðinni.

Blaðið segir, að blóðleifarnar, sem fundust við nákvæma rannsókn á veggjum svefnherbergis í íbúðinni, séu líklega úr norður-evrópskum karlmanni. Vitað er að karlmaður, sem dvaldi sem gestur þeirra Kate og Gerry McCann, foreldra Madeleine, í íbúðinni eftir að stúlkan hvart í byrjun maí, meiddi sig þar. Segir blaðið, að þetta kunni að skýra hvers vegna lögregla fann ekkert blóð í svefnherberginu strax eftir hvarfið.

Breska blaðið Daily Express segir, að lögregla kunni brátt að nefna nöfn manna sem liggi undir grun í málinu. Hefur blaðið eftir lögreglu, að fylgt hafi verið nýrri slóð sem hafi reynst mikilvæg.

Madeleine McCann, sem er 4 ára, hvarf úr hótelíbúð í Portúgal fyrir 105 dögum þegar foreldrar hennar voru í nálægu veitingahúsi að borða kvöldverð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert