Dönskum gíslum sleppt úr haldi sjóræningja

Danica White.
Danica White.

Utanríkisráðuneyti Danmerkur tilkynnti í dag að fimm gíslum, sem voru um borð í danska flutningaskipinu Danica White, hafi verið sleppt úr haldi sjóræningja í Sómalíu og sé líðan gíslanna eftir atvikum góð. Ráðuneytið efnir til blaðamannafundar um málið síðar í kvöld.

Skipinu Danica White var rænt af hópi vopnaðra sjóræningja undan strönd Sómalíu 1. júní og hefur mönnunum því verið haldið föngnum í tvo og hálfan mánuð. Skipið er í eigu fyrirtækisins H. Folmer & Co.

Við góða líkamlega heilsu en í áfalli
Sómalísku ræningjarnir slepptu dönsku sjómönnunum um klukkan hálf þrjú í dag á íslenskum tíma. Eftir að gíslunum var veitt frelsi tók franska herskipið Blaison við Danica White. Síðan 14. ágúst hafa fulltrúar utanríkisráðuneytis Danmerkur og landhelgisgæslunnar verið um borð í Blaison.

Áhöfn Danica White mun gangast undir læknisskoðun um borð í franska skipinu. Mennirnir eru talið vera við góða líkamlega heilsu en hafa orðið fyrir talsverðu áfalli. Auk skipstjórans og stýrimanns voru um borð þrír hásetar, þar af einn reyndur og tveir ungir og óreyndir sjómenn, 18 og 21 árs.

Reiðubúnir með smúl ef hætta var á ferðum
Ólafur Ragnarsson, fyrrverandi skipstjóri, vann um árabil fyrir danska útgerðarfyrirtækið H. Folmer & Co og sigldi þá meðal annars með Danica White.

Í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu fyrr í sumar sagði Ólafur að þegar siglt var um vafasöm svæði voru allir á vakt og vakandi og ef eitthvað hreyfðist í átt til skipsins hafi skipverjar á dekkinu verið reiðubúnir með öflugan smúl til þess að geta dælt sjó á sjóræningjana af fullum krafti ef þeir nálguðust skipið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert