Áhlaup gert á fyrirtæki sem er grunað um að ráða til sín óskráða innflytjendur

Embættismenn frá bandarísku innflytjendastofnuninni hafa ráðist inn í kjúklingaverksmiðju Koch Foods í Fairfield í Ohio, og búast þeir við að handtaka yfir 100 starfsmenn fyrirtækisins. Þetta er hluti aðgerða sem beinast gegn óskráðum innflytjendum að sögn embættismannanna.

Þá hafa fengist leyfi til þess að framkvæma húsleit samtímis hjá Koch Foods í Cincinnati og hjá höfuðstöðvum Koch í Chicago.

Að sögn talsmanns innflytjendastofnunarinnar hófust aðgerðirnar kl. 10 að austurstrandatíma í Bandaríkjunum. Hann segir að unnið hafi verið að því að rannsaka Koch Foods undanfarin tvo ár, en fyrirtækið er með kjúklingaframleiðslu sem það síðan selur til veisluþjónustna og smásöluaðila.

Áhlaup stofnunarinnar á Koch Foods er liður í aðgerðum innflytjendastofnunar sem beinir sjónum sínum að fyrirtækjum sem ráða til sín óskráða innflytjendur vítt og breitt um Bandaríkin. Margir starfsmanna í kjötframleiðslu í landinu eru óskráðir innflytjendur, en þeir koma aðallega frá ríkjum Mið- og Suður-Ameríku.

Fréttavefur Reuters greindi frá þessu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert