Svíar kallaðir á teppið í Pakistan vegna skopmynda af Múhameð spámanni

Múslímar mótmæltu því harðlega þegar skopmyndir af Múhameð spámanni höfðu …
Múslímar mótmæltu því harðlega þegar skopmyndir af Múhameð spámanni höfðu birst í evrópskum dagblöðum í fyrra. Reuters

Stjórnvöld í Pakistan kölluðu sænskan sendifulltrúa á sinn fund í Íslamabad í dag til að mótmæla skopmyndum af Múhameð spámanni sem hafa verið birtar í sænsku dagblaði. Frá þessu greindi sænska utanríkisráðuneytið í dag.

Lennart Holst, sendiherra í sænska sendiráðinu í Pakistan, fór á fund í pakistanska utanríkisráðuneytinu vegna skopmyndanna sem voru birtar í Nerikes Allehanda dagblaðinu.

Fram kemur að stjórnvöld í Pakistan hafi mótmælt birtingu skopmyndanna munnlega, og sögðu þetta væri móðgun við Múhameð spámann. Holst tjáði yfirvöldum í Pakistan að sænsk stjórnvöld geti ekki skipt sér af frelsi fjölmiðla í Svíþjóð.

Umrætt dagblað birti þann 19. ágúst sl. eina af umdeildum skopmyndum eftir sænska listamanninn Lars Vilks. Á myndinni sést höfuð Múhameðs teiknað á hundslíkama. Að minnsta kosti tvö sænsk listasöfn hafa neitað að sýna teikningarnar.

„Þetta (teikningarnar) eru list. [...] Ég hef ekkert á móti íslam. Allir vita það,“ sagði Vilks.

Miðstöð íslamista í Svíþjóð hafa skipulagt mótmæli sem verða haldin fyrir utan skrifstofur dagblaðsins í Örebro á morgun.

Skammt er að minnast þess að hörð mótmæli brutust út í ríkjum múslíma eftir að skopmyndir af Múhameð spámanni birtust í nokkrum evrópskum dagblöðum. Teikningarnar umdeildu birtust hinsvegar fyrst í danska dagblaðinu Jótlandspóstinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert