Þýsk sjónvarpsstjarna rekin fyrir að vegsama fjölskyldugildi nasista

Eva Herman.
Eva Herman. AP

Forráðamenn þýskrar sjónvarpsstöðvar ráku í dag vinsælan spjallþáttastjórnanda, sem er einnig fyrrum fréttalesari, eftir að hún hafði vegsamað stefnu nasista í fjölskyldumálum. Þetta gerði hún á blaðamannafundi þar sem hún var að kynna bók sem hún hafði skrifað um uppeldi barna.

Volker Herres, sjónvarpsstjóri NDR, skrifaði á vefsíðu sjónvarpsstöðvarinnar að hann hafi tekið þá ákvörðun að reka Evu Herman vegna ummæla hennar. Hann segir brottreksturinn muni taka gildi þegar í stað. Herres segir ummælin hafa verið óviðeigandi miðað við stöðu hennar sem spjallþáttastjórnanda og fréttalesara.

Herman, sem var fréttalesari fréttaþáttarins Tagesschau í 18 ár, eða til ársins 2006, hefur einnig stýrt fjölmörgum öðrum þáttum hjá NDR.

Þegar hún var að kynna bókina, sem ber heitið Das Prinzip Arche Noah - warum wir die Familie retten müssen, lét hún þau ummæli falla að þau fjölskyldugildi sem hafi verið höfð í hávegum hjá nasistum hafi verið varpað fyrir róða á seinni hluta sjöunda áratugarins.

„Þetta var hræðilegur tími með brjáluðum og hættulegum leiðtoga sem leiddi Þjóðverja til glötunar eins og við öll vitum. En á þessum tíma var einnig að finna eitthvað gott, og það eru gildin, það eru börnin, það eru fjölskyldurnar og samkenndin. Þetta var allt fellt úr gildi, það var ekkert eftir af þessu,“ sagði Herman á blaðamannafundinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert