Boðað myndskeið með Osama bin Laden birt

Myndskeið með Osama bin Laden, leiðtoga hryðjuverkasamtakanna Al Qaída birtist í dag í tilefni þess að sex ár eru frá því að hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum voru gerðar. Hryðjuverkasérfræðingur staðfesti á sjónvarpsstöðinni CNN að á myndbandinu væri mynd af bin Laden, hljóðupptaka af rödd hans og enskur texti.

Myndin á myndbandinu er ljósmynd, en á henni er bin Laden sagður líta eins út og á myndbandi sem birt var fyrir fáeinum dögum.

Osama bin Laden er sagður tala á fyrsta stundarfjórðungi myndbandsins, sem er um klukkutíma langt, og lofar hann þar hryðjuverkamennina sem gerðu sjálfsvígsárásirnar fyrir sex árum. Waleed al-Shehri, einn flugræningjanna sem gerðu árásirnar talar svo á myndbandinu

Öryggissérfræðingar hafa varað við því að myndskeiðið gæti verið merki um nýjar árásir. Fran Townsend, öryggisráðgjafi hjá Hvíta húsinu hafnar því hins vegar og segir bin Laden nær valdalausan.

Bandaríkjamenn minnast þess í dag að sex ár eru liðin frá hryðjuverkaárásinni þann 11. september 2001. Í fyrsta skipti verður atburðanna ekki minnst í nágrenni tvíburaturnanna í New York heldur í garði þar í nágrenninu. Skýrist það af miklum framkvæmdum á svæðinu sem ávalt er nefnt Ground Zero.

Margir þeirra slökkviliðsmanna sem komu að björgunarstörfum í World Trade Center hafa veikst af öndunarsjúkdómum og krabbameini í kjölfarið og einhverjir þeirra látist. Alls verður um fjórar þagnarstundir að ræða í dag líkt og undanfarin ár í New York borg. Á þeim tíma sem flugvélarnar lentu á turnunum og þegar þeir hrundu.

Osama bin Laden sést hér í myndbandinu sem hann sendi …
Osama bin Laden sést hér í myndbandinu sem hann sendi frá sér nýverið. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert