Saksóknarar segja enga ástæðu til að yfirheyra McCann hjónin frekar

Gerry og Kate McCann
Gerry og Kate McCann Reuters

Portúgalskir saksóknarar segja að ekki þurfi að yfirheyra foreldra Madeleine McCann, Gerry og Kate McCann, frekar vegna hvarfs Madeleine þann 3. maí sl. í Algarve-héraði í Portúgal.

Kemur fram í tilkynningu frá saksóknaraembættinu að ekkert sem hafi komið fram í málinu eftir sjöunda september gefi tilefni til frekari spurninga. Lögregla í Portúgal muni hins vegar halda rannsókn málsins áfram.

Foreldrar Madeleine hétu því í dag að þau myndu snúa aftur til Portúgal yrði þess óskað. Kom þetta fram eftir að fréttir voru fluttar af því að portúgalska lögreglan ætlaði að halda til Bretlands til þess að yfirheyra hjónin á ný.

Í viðtali sem birt var í dag við McCann hjónin, fyrsta viðtalinu sem birtist við þau frá því að þau komu aftur til Bretlands þann 9. september eftir að hafa fengið stöðu grunaðra í málinu, tók Kate McCann það fram að þau hefðu ekkert að fela og gætu snúið aftur til Portúgals yrði þess óskað.

Madeleine McCann hvarf úr hótelíbúð sem hún dvaldi í ásamt foreldrum og yngri systkinum í strandbænum Praia da Luz. Höfðu McCann hjónin skilið börnin þrjú eftir sofandi í íbúðinni er þau borðuðu á veitingastað fimmtíu metrum frá íbúðinni um kvöldið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert