Ummæli erkibiskups um smokka vekja reiði

Reuters

Æðsti maður kaþólsku kirkjunnar í Mosambík, Francisco Chimoio, erkibiskup í Moputo, sagði í viðtali við BBC að hann teldi að sumir smokkar, sem framleiddir eru í Evrópu, séu vísvitandi mengaðir af HIV, veirunni sem veldur alnæmi. Það sama eigi við um sum lyf gegn alnæmi. Tilgangurinn sé að „gera út af við þjóðir Afríku.“

Þeir sem berjast gegn útbreiðslu alnæmis í Mósambík hafa brugðist ókvæða við ummælum erkibiskupsins, og kallað þau „þvælu.“ Einn þeirra, Marcella Mahanjane, sagði við BBC: „Við höfum notað smokka árum saman og vitum að þeir eru öruggir.“

Chimoio sagði við fréttamann BBC að besta leiðin til að verjast alnæmi væri skírlífi, en ekki smokkar. Talið er að 16,2% íbúa Mósambík séu sýkt af HIV, og á degi hverjum bætast um 500 manns í þann hóp.

Chimoio sagði að í tveim Evrópulöndum, sem hann vildi ekki nafngreina, væru búnir til smokkar sem vísvitandi væru mengaðir með HIV. Þetta væri skipulögð starfsemi. Fram að þessu hefðu Evrópuríki tekið sér nýlendur í Afríku, en nú væri ætlunin að þurrka út afrískar þjóðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert