Segir þúsundir hafa verið myrtar í Myanmar að undanförnu

Yfirmaður í her Myanmar er sagður hafa gerst liðhlaupi og vilji sækja um pólitískt hæli í Noregi. Að sögn norskra fjölmiðla er maðurinn í felum í frumskógum nálægt landamærum Taílands og ætli að sæta færi til að fara yfir landamærin. Haft er eftir manninum, að þúsundir manna hafi verið myrtar í Myanmar að undanförnu að undirlagi stjórnvalda til að bæla niður mótmæli.

Fréttavefur Aftenposten hefur eftir þýsk-norska blaðamanninum og guðfræðingnum Hans-Joachim Schilde, að ofurstinn Hla Win vilji sækja um hæli í Noregi. Schilde segist hafa hitt Win, sem er 42 ára, og 17 ára son hans, í gær og telji sögu þeirra trúverðuga.

Schilde hefur eftir Win, að hann hafi fengið nóg þegar hann fékk fyrirskipan um að ráðast inn í tvö Búddaklaustur, taka nokkur hundruð munka þar til fanga, skjóta þá og koma líkum þeirra fyrir í frumskóginum.

Shilde segir að Win eigi enn eiginkonu og tvo syni í Myanmar en treysti því að bróðir konunnar, sem er háttsettur herforingi, verndi mæðginin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert