Bush fundaði með Dalai Lama þrátt fyrir mótmæli kínverskra yfirvalda

Dalai Lama fundaði tvisvar með Bush í óþökk Kínverja.
Dalai Lama fundaði tvisvar með Bush í óþökk Kínverja. Reuters

Forseti Bandaríkjanna, George W. Bush kom fram opinberlega með Dalai Lama, andlegum leiðtoga Tíbets í dag og þykir felast nokkur ögrun í því þar sem ráðamenn í Kína höfðu mótmælt áætlunum um hinn táknræna fund. Dalai Lama var staddur í Washington til að taka við heiðursmerki bandaríska þingsins, Congressional Gold Medal.

Ráðamenn í Peking mótmæltu harðlega þegar fréttist af einkafundi Bush og Dalai Lama í gær. Bush sat við hlið Dalai Lama í Washington í dag áður en Nancy Pelosi forseti þingsins veitti honum heiðursmerkið sem er æðsta viðurkenning sem Bandaríska þingið veitir óbreyttum borgurum.

Bush sagði að það væri Kínverjum í hag að funda með Dalai Lama.

Utanríkisráðherra Kína, Yang Jiechi hafði fyrir fund Bush og Dalai Lama að litið yrði á slíkan fund sem alvarlegt brot á hefðum og venjum í alþjóðlegum milliríkjasamskiptum og sakaði hann Bandaríkin um að hafa sært tilfinningar í Kína og skipt sér af innanríkismálum þar.

Bush sagði að athöfnin í dag myndi ekki skaða samband Bandaríkjanna við Kína og sagði að ef kínverskir ráðamenn settust á rökstóla með Dalai Lama myndu þeir komast að því að hann er maður friðar og sáttfýsi.

Bush er fyrsti forseti Bandaríkjanna sem hittir Dalai Lama opinberlega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert