Segist launsonur Margrétar prinsessu

Robert Brown, 52 ára endurskoðandi frá Jersey á Englandi hefur krafist þess að fá að sjá erfðaskrá Margrétar prinsessu, systur Elísabetar Englandsdrottningar, sem lést árið 2002, 71 árs að aldri. Brown telur að hann sé óskilgetinn sonur Margrétar og flughermannsins Peter Townsend.

Margrét og Townsend áttu í ástarsambandi um miðja síðustu öld, Brown fæddist árið 1955 í Kenýa og er sonur Cynthiu Joan Brown og Douglas Richard Brown, en móðir hans starfaði sem módel fyrir kjólahönnuð Elísabetar drottningar. Brown telur að foreldrar hans hafi samþykkt að ættleiða hann svo ekki yrði konunglegt hneyksli vegna óléttu prinsessunnar.

Telur Brown að hans sé getið í erfðaskrár Margrétar, en hún skildi eftir sig um 7,6 milljónir punda.

Dómstólar og aðrir hafa lýst miklum efasemdum vegna krafna Brown og hugmyndir hans sagðar veruleikafirrtar. Hins vegar er mögulegt að mál hans verði tekið fyrir þar sem dómarar segja málið vekja upp spurningar hvort rétt sé að erfðaskrár meðlima konungsfjölskyldunnar séu lokaðar almenningi.

Erfðaskrár hátt settra meðlima konungsfjölskyldunnar hafa verið innsiglaðar frá árinu 1911, og almenningi meinaður aðgangur að þeim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert