Samgöngur lamaðar í Frakklandi

Samgöngur eru úr skorðum í Frakklandi í dag.
Samgöngur eru úr skorðum í Frakklandi í dag. AP

Samgöngur í Frakklandi eru lamaðar eftir að opinberir starfsmenn, sem sjá um að stjórna almenningssamgöngum, hófu eins dags verkfall. Rútu- og lestarferðir liggja að langmestu leyti niðri af þessum völdum. Verkfallið hófst kl. 20 að frönskum tíma í gær (kl. 18 að íslenskum tíma).

Þetta er fyrsta prófraun Nicolas Sarkoozy Frakklandsforseta sem vill koma í gegn endurbótum í opinbera geiranum, en hann hyggst m.a. afnema ýmis sérréttindi varðandi eftirlaun opinberra starfsmanna.

Verkfallið kemur á sama tíma og Frakkar búa sig undir að halda úrslitaleik í heimsmeistaramótinu í ruðningi á laugardag, og er von á þúsundum ruðningsaðdáeinda til Parísar.

Verkalýðsfélög hyggjast standa fyrir götumótmælum í um 60 borgum og bæjum í baráttu sinni fyrir verndun eftirlaunakerfisins, sem um 1,6 milljón starfsmanna njóta.

Aðeins 46 TGV-hraðlestir ferðast skv. áætlun af þeim 700 sem eru alla jafna í gangi.

Í París eru samgöngur jafnframt lamaðar og eru sárafáar neðanjarðarlestir og strætisvagnar akandi skv. áætlun.

Flugmálayfirvöld í landinu hafa einnig bent á að röskun gæti orðið á flugi sem flugvallarstarfsmenn munu eiga erfiðleikum með að komast til vinnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert