Þekktum vísindamanni vikið úr starfi eftir umdeild ummæli

Dr. James Watson.
Dr. James Watson. AP

Þekkt rannsóknarstofa í New York hefur vikið Nóbelsverðlaunahafanum Dr. James Watson úr starfi eftir að hann lét umdeild ummæli varðandi þeldökka kynstofninn flakka í blaðaviðtali fyrr í vikunni.

Watson, sem er staddur í London til að kynna nýja bók sína, hefur beðist afsökunar á ummælunum. Fram kemur í breskum fjölmiðlum að hann hafi ekki ætlað sér að lýsa Afríkubúum sem erfðafræðilega á eftir öðrum kynstofnum.

Watson, sem hlaut Nóbelsverðlaunin í líffræði og eðlisfræði árið 1962 fyrir að lýsa hinni tvöföldu gormbyggingu DNA, var í gær vikið úr starfi sem yfirmaður Cold Spring Harbor rannsóknarstofunni í New York.

Watson, sem er 79 ára, hefur tengst rannsóknarstofunni frá árinu 1948. Forsvarsmenn hennar hafa tekið undir sjónarmið annarra stofnana auk þekktra vísindamanna að ummæli Watsons hafi verið bæði móðgandi og röng út frá sjónarhóli vísindanna.

Í viðtali við breska blaðið The Sunday Times sagði Watson að hann væri svartsýnn á framtíðarhorfur Afríku vegna þess að „allar félagslegar stefnur okkar byggja á þeirri staðreynd að gáfnafar þeirra sé það sama og okkar - en allar rannsóknir sýna fram á annað.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert