70 bandarískum hermönnum refsað fyrir kjarnorkumistök

B-52 sprengjuflugvél.
B-52 sprengjuflugvél. Reuters

Bandaríski flugherinn hefur refsað 70 starfsmönnum, sem taldir voru bera ábyrgð á því, að B-52 sprengjuflugvél var flogið frá Norður-Dakóta til Louisiana með sex stýriflaugar innanborðs sem allar voru með virkum kjarnaoddum. Tæpur sólarhringur leið þar til mistökin uppgötvuðust.

Richard Newton, hershöfðingi, tilkynnti í gærkvöldi niðurstöðu sex vikna rannsóknar á málinu og sagði, að í ljós hefði komið að ekki var fylgt reglum um meðferð kjarnorkuvopna. Fjórir yfirmenn í flughernum voru lækkaðir í tign vegna málsins og 66 öðrum refsað með öðrum hætti.

Verið var að flytja stýriflaugarnar til Louisiana en áður átti að fjarlægja kjarnaoddana. Aðalástæða mistakanna var sú, að ekki var fylgt flóknum reglum um hvernig rekja eigi feril kjarnaoddanna þegar þeir eru aftengdir og fluttir.

Sky fréttastofan hefur eftir ónafngreindum heimildarmanni, að hermennirnir, sem báru ábyrgð á ferlinu, hefðu fylgt eigin óformlegu reglum í stað þeirra opinberu.

Bandalag bandarískra vísindamanna hefur lýst efasemdum um að flugið frá Norður-Dakóta til Louisiana sé einsdæmi. Bent hafi verið á það fyrir áratug að slaknað hafi á reglum um meðferð kjarnorkuvopna innan bandaríska hersins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert