Bandaríkjamenn „innlima“ frægasta foss í Kanada

Útsýnisbáturinn Maid O' the Mist með ferðamenn við Skeifufoss.
Útsýnisbáturinn Maid O' the Mist með ferðamenn við Skeifufoss. AP

Svo virðist sem Bandaríkjastjórn hafi innlimað frægasta fossinn í Kanada í herferð sem miðar að því að laða erlenda ferðamenn til Bandaríkjanna. Í kynningamyndbandi sem Disney framleiddi fyrir tvö bandarísk ráðuneyti eru sýnd mörg helstu náttúruundur Bandaríkjanna - og einnig þekktasti foss í Kanada.

Myndbandið heitir „Velkomin: Svipmyndir frá Bandaríkjunum,“ og ætlunin er að það verði sýnt á völdum flugvöllum í Bandaríkjunum og í bandarískum sendiráðum erlendis.

Á myndbandinu getur að líta Miklagljúfur, Klettafjöllin og strendur Hawaii, svo eitthvað sé nefnt, og einnig sjást þar Niagara-fossarnir, sem eru á landamærum Bandaríkjanna og Kanada.

En svo vill til að fossinn sem sýndur er, Skeifufossinn, er sá eini af Niagarafossunum þremur sem er algerlega Kanadamegin landamæranna. Til að bæta gráu ofan á svart er myndin tekin frá kanadísku sjónarhorni, þannig að ferðamaður í Bandaríkjunum gæti ekki séð fossinn frá því sjónarhorni sem er í myndinni.

Viðbrögð bandarískra embættismanna hafa ekki verið á þá lund að ætla megi að myndbandinu verði breytt. Það hefur þegar verið sent til bandarískra sendiráða erlendis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert