Öryggisverðir Blackwater njóta friðhelgi

Starfsmenn Blackwater í Írak.
Starfsmenn Blackwater í Írak. Reuters

Fréttastofan AP segir að utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hafi lofað öryggisvörðum hjá fyrirtækinu Blackwater friðhelgi við rannsókn atviksins í Írak í september þar sem 17 Írakar voru skotnir til bana. Þetta getur þýtt að afar erfitt verði að kæra öryggisverðina, og hugsanlega ómögulegt. Írösk stjórnvöld eru sögð afar ósátt við þetta.

Talsmenn utanríkisráðuneytisins hafa ekki viljað tjá sig um málið. Rannsókn á atvikinu hefur staðið yfir í rúman mánuð en starfsmenn bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, sneru aftur til Washington í dag frá Bagdad, þar sem þeir hafa unnið að rannsókninni.

Grunur leikur á að öryggisverðirnir hafi skotið á óvopnað fólk án þess að ástæða hafi verið til. Samkvæmt heimildum AP var öllum öryggisvörðunum lofað friðhelgi þegar rannsóknin hófst, bæði þeim sem voru á jörðu niðri og þyrluflugmönnum.

Um er að ræða svokallaða Garrity vernd þar sem framburð er einungis hægt að nota til að skýra mál, en ekki til að ákæra. Alríkislögreglan hefur síðan yfirheyrt öryggisverðina aftur og má nota þann ramburð fyrir dómstólum, en sumir mannanna munu hafa neitað að tjá sig, og borið fyrir sig stjórnarskrárbundnum rétti sínum til þagnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert