Laun Sarkozys rúmlega tvöfaldast

Sarkozy getur huggað sig við að hann á von á …
Sarkozy getur huggað sig við að hann á von á hárri launahækkun Reuters

Franski forsetinn Nicolas Sarkozy er umtalaður þessa dagana, hann stendur í skilnaði og komst í heimsfréttirnar er hann stóð upp í miðju viðtali við fréttaþáttinn 60 minutes á dögunum og rauk á dyr. Hann getur þó huggað sig við það að samkvæmt viðbótum stjórnvalda við fjárlög landsins munu laun hans rúmlega tvöfaldast.

Laun Sarkozy eru nú 104.000 evrur á ári, jafnvirði um níu milljóna króna á ári, en verða 240.000 evrur á ári, eða um tuttugu milljónir króna eftir breytingarnar. Tilgangurinn er sagður sá að jafna laun forseta og forsætisráðherra, en forsætisráðherrann hefur haft mun hærri laun en forsetinn.

Sarkozy hefur varið hækkunina í fjölmiðlum og segist vilja gagnsæi í fjármálum embættismanna. Þá segja talsmenn stjórnvalda að einnig sé um að ræða þörf á samræmi, ábyrgð forseta landsins sé mikil, og að því sé rétt að forsetinn fái sambærileg laun og aðrir embættismenn í svipuðum stöðum í Evrópu.

Helmingur frönsku þjóðarinnar fær innan við 1.500 evrur í laun á mánuði. Eitt kosningamála Sarkozy fyrir síðustu kosningar var að bæta kjör Frakka með því að stuðla að auknu frelsi á vinnumarkaðnum. Stjórnarandstæðingar hafa gagnrýnt launahækkunina og segja hana ótímabæra þar sem flestir borgara landsins eigi í erfiðleikum með að ná endum saman.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert