Forsetaframbjóðendur sjá sýnir

Forsetaframbjóðendur Demókrata í sjónvarpssal í gær. Dennis Kucinich er annar …
Forsetaframbjóðendur Demókrata í sjónvarpssal í gær. Dennis Kucinich er annar frá vinstri með Bill Richardson sér á vinstri hönd. Reuters

„Það sem ég sá var óskilgreindur fljúgandi hlutur. Það hafa ekki verið borin kennsl á hann. En ég sá eitthvað,” sagði Dennis Kucinich forsetaframbjóðandi Demókrata í kappræðum í beinni útsendingu úr sjónvarpssal sem milljónir áhorfenda fylgdust með. Kucinich sem er lengst úti á vinstri væng flokksins var ekki talinn eiga raunverulegan möguleika á tilnefningu flokksins fyrir þessi ummæli og ólíklegt að það breytist en þau vöktu athygli á honum.

Það þykir nokkuð merkileg tilviljun að Kucinich stóð á svölunum hjá vinkonu sinni Shirley MacLaine þegar hann sá hið óútskýranlega fljúgandi fyrirbæri en hún er þekkt fyrir að bera gott skynbragð á óútskýranleg fyrirbæri sem venjuleg skynfæri duga ekki til að nema.

Samkvæmt frétt í Berlingske Tidende reyndi Kucinich að létta stemmninguna í kappræðunum með því að segjast ætla að opna kosningaskrifstofu í Roswell, bæ sem er frægur fyrir þá samsæriskenningu að þar hafi geimverur brotlent 1947 en herinn og ríkið munu að sögn samsæriskenningasmiða hylma yfir þann viðburð af einhverjum ástæðum.

Upp spruttu síðan umræður um það hvort frambjóðendurnir tryðu á geimverur eður ei. Bill Richardson er ríkisstjóri í Nýju Mexíkó, fylkinu þar sem Roswell er að finna og því þótti eðlilegt að spyrja hann hvort hann tryði á tilvist geimvera og með bros á vör sagði hann að svo væri ekki.

Hillary Clinton, Barack Obama og John Edwards tóku ekki upp geimverudeiluna en ræddu alvarlegri málefni og kallaði Obama Clinton „létta útgáfu af Bush” (e. Bush light) vegna stuðnings hennar við stríðið í Írak og stuðning við þingsályktun sem gerir íranska herdeild að löggiltum hryðjuverkasamtökum.

Tveir mánuðir eru í það að prófkjör hefjist hjá Demókrötum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert