Rússar setja ÖSE skilyrði um kosningaeftirlit

Rússar vilja takmarka fjölda kosningaeftirlitsmanna við þingkosningarnar í Rússlandi í …
Rússar vilja takmarka fjölda kosningaeftirlitsmanna við þingkosningarnar í Rússlandi í desember AP

Rússar vilja setja Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu skilyrði um eftirlit með þingkosningunum sem fram fara í landinu þann 2. desember nk. Fréttavefur BBC hefur eftir Urði Gunnarsdóttur, talskonu ÖSE að engin fordæmi séu fyrir þeim skilyrðum sem Rússar setji og að þau myndu alvarlega takmarka möguleika á því að fylgjast fyllilega með kosningunum.

Bandarísk stjórnvöld hafa einnig gagnrýnt það að Rússar skuli setja slík skilyrði og það hve seint þau séu sett, Dana Perino, talskona Hvíta hússins segir Bandaríkjamenn áhyggjufulla vegna hvers konar skilyrða sem eftirlitinu séu sett og að málið verði tekið upp við Rússa.

ÖSE sendir gjarnan eftirlitshópa til að fylgjast með kosningum, og þá venjulega eftir að stjórnvöld hafa sent boð um slíkt. Stofnunin segir hins vegar að ekki hún semji ekki um stærð og gerð slíkra nefnda.

Urður segir við BBC að málið eigi sér engin fordæmi og að skoða verði hvaða þýðingu bréfið hafi, hún segir að í því standi að stjórnvöld í Moskvu séu „reiðubúin til viðræðna um samsetningu nefndarinnar". Þá segir hún að aðalkjörnefnd Moskvu hafi lagt til að nefndin verði skipuð 70 manns, en þegar kosið var til þings í Rússlandi fyrir fjórum árum sendi ÖSE 465 fulltrúa sem höfðu eftirlit með kosningunum.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, býður fram í kosningunum sem forsætisráðherraefni flokksins Sameinaðs Rússlands, en kjörtímabili hans sem forseta líkur í mars nk. Pútín er afar vinsæll heima við, en hefur verið gagnrýndur af ýmsum fyrir að hafa fært Rússland í átt til fyrri stjórnarhátta. Sameinað Rússland tilkynnti fyrr í vikunni að ekki stæði til að flokkurinn tæki þátt í kappræðum með öðrum flokkum í sjónvarpi, heldur myndi flokkurinn nýta tímann þess í stað til að kynna „áætlun Pútíns fyrir rússnesku þjóðinni".

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert