Bretum bætt hugsanlegt tjón vegna tölvudiskahneykslis

Alastair Darling.
Alastair Darling. Reuters

Bresk yfirvöld sæta nú harðri gagnrýni eftir að greint var frá því að tveir tölvudiskar sem innihalda persónuupplýsingar um 25 milljónir manna hafi týnst í pósti en um er að ræða upplýsingar um alla barnabótaþega í Bretlandi. Talsmenn stjórnarandstöðunnar í landinu hafa krafist afsagnar Alistair Darling fjármálaráðherra vegna málsins sem þau segja merki þess að ríkisstjórn landsins sé ekki fær um að sinna þeirri grundvallarskyldu sinni að vernda almenna borgara í landinu. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Darling segist sjálfur vera mjög sleginn vegna málsins. „Fólki er gert að treysta yfirvöldum fyrir ákveðnum upplýsingum, sem tengjast barnabótum og fleiru, og því trausti höfum við nú brugðist,” sagði hann í útvarpsviðtali í morgun. Þá sagði hann að umræddar upplýsingar hefðu aldrei nokkru sinni átt að yfirgefa bygginguna þar sem þær voru geymdar. Ekki hafi verið rétt að afrita þær á tölvudisk hvað þá að senda þær í almennum pósti.

Darling segist þó ekki hafa í hyggju að segja af sér vegna málsins. „Þetta er erfitt og leiðinlegt mál á allan hátt en ég er ákveðinn í að leiða það til lykta,” sagði hann. Þá sagði hann að kæmi til þess að einstaklingar töpuðu fé vegna málsins yrði það að fullu bætt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert