Það er tímaspursmál hvenær alvarlegt slys verður hjá SAS

Harðorð skýrsla um öryggismál hjá SAS birtist í fjölmiðlum á …
Harðorð skýrsla um öryggismál hjá SAS birtist í fjölmiðlum á norðurlöndum. mbl.is/Þorkell

„Það er tímaspursmál hvenær flugvél frá SAS flugfélaginu lendir í alvarlegu slysi,” segir í bréfi frá norsku flugumferðastjórninni til systurstofnanna sinna á hinum Norðurlöndunum.

Kjell Klevan er yfirmaður öryggismála hjá norsku flugumferðastjórninni og segir hann að tregða innan SAS til að viðurkenna mistök og skortur á samstarfsvilja með yfirvöldum í öryggismálum gegnsýri félagið og að það sé tímaspursmál hvenær alvarlegt óhapp verður af þessum sökum.

Bréfið sent í mars
Klevan mun hafa sent starfsfélögum sínum á Norðurlöndum bréfið í mars á þessu ári. Þetta kemur fram á Jyllandsposten og hafa norrænir fjölmiðlar fjallað ítarlega um málið í morgun.

Samkvæmt Dagens Nyheter í Svíþjóð er gagnrýnin ekki jafn hörð í garð flugfélagsins þar í landi en í Noregi eru öryggismál flugfélagsins sögð vera slæm.

Atvik sem brutu í bága við öryggisreglur
Bréfið frá Klevan kom í kjölfar margra atvika hjá SAS sem brutu í bága við öryggisreglur. Í eitt skiptið fór flugvél í loftið þrátt fyrir að flugstjórinn skömmu fyrir flugtak sá eldsneyti leka úr öðrum vængnum. Í annað skipti rak vél stélið í flugbrautina, um borð voru 244 farþegar.

Yfirmaður segir öryggi SAS í lagi
Í viðtali við Jyllandsposten segir John Dueholm yfirmaður SAS samsteypunnar að félagið fjarlægi sig frá þessari gagnrýni. „Við höfum orð yfirvalda fyrir því að flugöryggi SAS sé í lagi,” sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert