15 ára stúlka sett í fangaklefa með 20 mönnum

Fimmtán ára gömul stúlka, sem grunuð var um að hafa framið rán í borginni Abaetetuba í Parafylki í Brasilíu, var höfð í fangaklefa með 20-34 karlmönnum í rúman mánuð. Að sögn þarlendra mannréttindasamtaka var stúlkunni nauðgað stöðugt á meðan hún var í klefanum. Málið hefur vakið mikinn óhug í Brasilíu.

Fréttastofan AFP hefur eftir Miere Cohen, formanni mannréttindaráðs brasilískra lögmanna, að stúlkunni hafi verið nauðgað ótal sinnum og hún neydd til að taka þátt í ýmiskonar kynlífsathöfnum til að fá mat.

Brasilískir fjölmiðlar segja, að fyrir skömmu hafi 23 ára gömul kona verið sett í fangaklefa með allt að 70 karlmönnum í sama fylki.

Cohen segir, að stúlkan hafi verið handtekin í október grunuð um rán. Lögreglan geti hins vegar ekki upplýst hvaða rán sé um að ræða og stúlkan var aldrei ákærð.

Ana Julia Carepa, fylkisstjóri í Para, segir að málið verði rannsakað og þeir sem beri ábyrgðina fái refsingu. Hefur þeim lögreglumönnum, sem lokuðu stúlkuna inni, verið vikið frá störfum meðan rannsókn fer fram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert