Rússar kvarta yfir kosningasvikum

Atkvæði talin í borginni Divnogorsk í Síberíu.
Atkvæði talin í borginni Divnogorsk í Síberíu. Reuters

Ýmislegt virðist vera að athuga við framkvæmd þingkosninganna í Rússlandi í dag. Margir Rússar segjast hafa verið þvingaðir til að kjósa, aðrir segja, að þegar hafi verið búið að fylla út kjörseðla þeirra þannig að flokkur Vladímírs Pútíns, forseta, fékk atkvæðin. Þá hafa einnig borist fréttir af mútugreiðslum, að sögn eftirlitsstofnana.

AP fréttastofan segir, að þessi kosningasvik virðist tengjast skipulagðri herferð til að auka kjörsókn og trygga að Sameinað Rússland, flokkur Pútíns, vinni stórsigur. Útgönguspár og fyrstu tölur benda til þess að flokkurinn hafi fengið yfir 60% atkvæða.

Alexander Kynev, sérfræðingur hjá eftirlitsstofnuninni Golos, segir að tugir kjósenda segi að þeim hafi verið greitt fyrir að kjósa Sameinað Rússland. Þá sagði hann, að kjósendur í bænum Pestovo í Novgorodhéraði, hafi fengið í hendur kjörseðla þar sem þegar var búið að merkja við flokk Pútíns.

Í Tétsníu, þar sem kjörsókn var yfir 99%, sögðust sjónarvottar hafa séð kjörstjórnarmenn fylla út kjörseðla í úthverfi höfuðborgarinnar Grosní. Þá segir Golos að víða hafi kosningabarátta verið í fullum gangi í dag. Einn starfsmaður stofnunarinnar var handtekinn í borginni Petrozavodsk eftir að hafa tilkynnt um brot á kosningalögum.

„Þetta er svallveisla," sagði Kynev. „Brotin á kosningalögunum eru svo almenn og víðtæk að þetta hlýtur að vera skipulögð herferð."

Boris Nemtsov, leiðtogi stjórnarandstöðuflokks, sagði að verið væri að nauðga rússneskum borgurum. „Pútín er allstaðar: Fólki er hótað og það neytt til að kjósa, ella fái það ekki laun eða ellistyrk," sagði hann.

Gennadí Zjúganov, leiðtogi Kommúnistaflokksins, sagði að flokkurinn muni kæra úrslit kosninganna, sem væru þær ábyrgðarlausustu og óheiðarlegustu í landinu frá því Sovétríkin liðu undir lok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert