„Týndi ræðarinn“ handtekinn

John Darwin.
John Darwin. Reuters

Bretinn sem kom fram í síðustu viku eftir að hafa verið saknað í fimm ár og talinn hafa drukknað í kajakróðri var handtekinn á heimili sona sinna í gærkvöldi vegna gruns um svik. Breskt blað birti í gær mynd sem það sagði hafa verið tekna af manninum og konu hans í Panama í fyrra.

Maðurinn heitir John Darwin, er 57 ára og var talinn af eftir að brak úr kajaknum hans fannst í fjöru í mars 2002. En um síðustu helgi skaut hann upp kollinum á lögreglustöð í London, og sagðist hafa misst minnið.

Kona hans seldi fyrir skömmu húsið þeirra í Bretlandi og flutti til Panama. Hún tjáði Daily Mail að hún hefði fengið líftryggingu mannsins síns greidda út eftir að dánardómsstjóri lýsti hann látinn 2003.

Ekki hefur verið staðfest að myndin sem Daily Mirror birti sé raunverulega af Darwin-hjónunum, en lögreglan í Bretlandi segir að hvarf Johns Darwins hafi „vakið fjölmargar spurningar“ og væri þess farið á leit að almenningur veitti lögreglunni allar upplýsingar sem hann kynni að búa yfir.

„Það eru örugglega margir sem vita nákvæmlega hvar hann hefur haldið sig, hvað hann hefur haft fyrir stafni og hvar hann hefur búið,“ sagði talsmaður lögreglunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert