ESB vill beita bílframleiðendur CO2 sektum

Evrópskir bílaframleiðendur verða beittir sektum losi þeir meira af koltvísýringi …
Evrópskir bílaframleiðendur verða beittir sektum losi þeir meira af koltvísýringi en leyfilegt er, verði tillaga framkvæmdastjórnar ESB samþykkt. AP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt til að beita skuli bifreiðaframleiðendur sektum losi þeir meira af koltvísýringi en leyfilegt verður árið 2012. 

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins að ESB hafi lagt til að hafið verði að beita sektarákvæðum árið 2012. Miðað er við að hvert gramm af koltvísýringi sem fer yfir leyfileg mörk muni kosta 20 evrur. Árið 2015 mun sektin hækka töluvert, eða í 95 evrur.

Jose Manuel Barroso, framkvæmdastjóri ESB, segir að sambandið vilji stefna að því að vera í forystu á heimsvísu þegar kemur að því að takmarka losun koltvísýrings út í andrúmsloftið.

Evrópskir bifreiðaframleiðendur á borð við BMW í Þýskalandi og Peugeot í Frakklandi hafa gagnrýnt tillögur ESB.

Forsvarsmenn BMW segir tillögurnar vera barnaleg skref sem muni hafa bjöguð áhrif á markaðinn, og koma framleiðendum smærri bíla til góða. Peugeot segir að hugmyndir ESB séu andvistfræðilegar, andfélagslegar, andefnahagslegar og hafi auk þess neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu evrópskra bifreiðaframleiðanda gagnvart öðrum framleiðendum í heiminum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert