Serbar harðir í afstöðu sinni

Forseti Serbíu, Boris Tadic, sést hér taka í hönd Vojislav …
Forseti Serbíu, Boris Tadic, sést hér taka í hönd Vojislav Kostunica, forsætisráðherra Serbíu, í þingsal. Reuters

Þingheimur í Serbíu hefur í hyggju að samþykkja ályktun þar sem fram kemur að aðild að Evrópusambandinu og NATO verði hafnað viðurkenni Vesturlönd sjálfstæði Kosovo-héraðs.

Forseti Serbíu, Boris Tadic, og Vojislav Kostunica, forsætisráðherra Serbíu, sem leiða tvo stærstu flokkana í sambandsstjórn landsins, hafa báðir lýst stuðningi við ályktunina. Þá er talið líklegt að harðlínumenn í landinu muni einnig lýsa yfir stuðningi við ályktunina, að því er fram kemur á fréttavef Reuters.

„Serbía mun aldrei viðurkenna sjálfstæði Kosovo,“ sagði Tadic við þingið. Hann sagði jafnframt að Serbía muni halda áfram að berjast fyrir málinu á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna 9. janúar nk.

Tadic, sem hefur boðið sig fram til endurkjörs í forsetakosningum í janúar, segir að ef friðargæsluliðum NATO mistekst að vernda Kosovo-Serba gegn ofbeldisverkum þá sé serbneski herinn „reiðubúinn að verja þá, með samþykki allra hlutaðeigandi alþjóðastofnana og skv. alþjóðalögum.“

Orðalag Kostunica hefur verið mun harðara og andsnúnara Vesturveldunum en orðalag félaga hans í samsteypustjórninni. Hann segir að umrædd ályktun sé síðasta vígi Serba.

„Það mun senda þau skilaboð til Serba í Kosovo [...] að þeir eigi að virða að vettugi einhliða sjálfstæðisyfirlýsingu og líta á slíkt sem ólögmæta athöfn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert