Brestir í öryggisgæslu Bhutto

Benazir Bhutto biðst fyrir eftir komuna til Karachi í október.
Benazir Bhutto biðst fyrir eftir komuna til Karachi í október. Reuters

Samsæriskennigar eru þegar komnar á kreik varðandi það hver stóð á bak við morðið á Benazir Bhutto, fyrrum forsætisráðherra Pakistans, fyrr í dag. Vekur það sérstaka athygli hversu léleg öryggisgæsla hennar virðist hafa verið ekki síst í ljósi þess að sprengjutilræði urðu fjölda manns að bana er hún snéri heim til Pakistans þann 18. október síðastliðinn. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Fram hafa komið kenningar um að al Qaeda samtökin eða önnur samtök herskárra íslamista hafi staðið á bak við morðið en einnig hefur getum verið leitt að því að yfirvöld í Pakistan hafi skipulagt það.

Augljósir brestir í öryggisgæslu Bhutto vekja sérstaka athygli fréttskýrenda en einnig það að tilræðismaðurinn sprengdi sig í loft upp eftir að hafa skotið Bhutto. Þykir það bera vott um að hann hafi viljað koma í veg fyrir að hægt væri að bera kennsl á hann og rekja tengsl hans til nokkurra samtaka eða aðila. 

Sjálf lýsti Bhutto yfir undrun og áhyggjum af öryggismálum sínum í  bréfi til fréttastofu CNN eftir sprengjutilræðið í Karachi. „Stuttu síðar var mér sagt að hætta að ferðast í bílum með skyggðum gluggum, sem vernduðu mig gegn því að hryðjuverkamenn bæru kennsl á mig og að hætta að ferðast með vopnaða verði með mér," skrifaði hún. „Mér fór að líða eins og net væri að þrengjast um mig þegar dregið var úr öryggisgæslu við heimili mitt í Karachi á sama tíma og mér var sagt að verið væri að skipuleggja banatilræði við mig."

Bhutto var tvisvar sett í ferðabann í nóvember en síðara banninu var aflétt 16. nóvember.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert