Útskýringar á dauða Bhutto dregnar til baka

Daglegt líf er nú að færast í eðlilegt horf í …
Daglegt líf er nú að færast í eðlilegt horf í Rawalpindi þar sem Benazir Bhutto, fyrrum forsætisráðherra Pakistans, var ráðin af dögum á fimmtudag. AP

Innanríkisráðuneyti Pakistans hefur dregið til baka fyrri skýringar sínar á því hvernig dauða Benazir Bhutto, fyrrum forsætisráðherra landsins, bar að höndum síðastliðinn fimmtudag. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

Upphaflega sagði ráðuneytið að skotsár hafi dregið Bhutto til dauða en síðan tilkynnti það að Bhutto hefði látist vegna höfuðhöggs sem hún hlaut er hún rak höfuð sitt í sóllúguhandfang í  bifreiðinni sem hún var í.

Javed Iqbal Cheema, talsmaður ráðuneytisins, sagði síðan í viðtali við CNN í dag að yfirvöld í landinu ætli að bíða eftir niðurstöðum nánari rannsókna áður en þau slái nokkru föstu varðandi dánarorsök Bhutto. Þá segir hann fyrri yfirlýsingu sína hafa byggst á frumrannsókn málsins og skýrslum lækna sem sinntu henni er hún var færð á sjúkrahús í Rawalpindi.

„Ég var bara að fara yfir staðreyndir, þið skiljið, ekkert meira né minna,” sagði hann. „Það eru alls engin áform uppi um að fela neitt fyrir pakistönsku þjóðinni."

Talsmaður sjúkrahússins hins vegar til baka að yfirlýsing talsmannsins hafi verið höfð eftir læknum þar og segir einungis koma fram í skýrslum þeirra að hún hafi haft opið sár á höfði og látist vegna áverka á höfuðkúpu. Myndir hafa birst á undanförnum dögum sem sýna tvo menn skjóta á Bhutto skömmu áður en hún lést.

Stuðningsmenn Bhutto segja yfirvöld í landinu hafa reynt að koma í veg fyrir að það spyrðist út að hún hafi verið skotin til að breiða yfir bresti í öryggisgæslu hennar.

Yfirvöld í Pakistan hafa nú birt myndir af tveimur grunuðum tilræðismönnum og heitið fjármunum fyrir upplýsingar um þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert