Hvetja til aðgerða á Sri Lanka

Íslenskir og norskir gæsluliðar SLMM munu yfirgefa Sri Lanka
Íslenskir og norskir gæsluliðar SLMM munu yfirgefa Sri Lanka Reuters

Alþjóðleg mannréttindasamtök hvetja Sameinuðu þjóðirnar til þess að senda gæslulið til Sri Lanka til þess að verja almenning í borgarastyrjöldinni sem þar ríkir. Eins og greint hefur verið frá tilkynntu stjórnvöld á Sri Lanka stjórnvöldum í Noregi frá því að vopnahléssamningi við Tamíl Tígra hafi verið sagt upp frá og með 16. janúar.

Íslendingar og Norðmenn hafa starfrækt samnorrænu eftirlitssveitirnar SLMM frá árinu 2002. Að sögn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, er eftirlitsstarfi Íslendinga á Sri Lanka sjálfhætt í kjölfarið. Íslensk og norsk stjórnvöld munu senda frá sér tilkynningu um málið í dag.

Í tilkynningu frá Human Rights Watch í dag kemur fram að samtökin hvetja Sameinuðu þjóðirnar til þess að senda gæslusveit til Sri Lanka þar sem SLMM muni yfirgefa landið í kjölfar uppsagnar vopnahléssamningsins. Að sögn Elaine Pearson, yfirmanns Human Rights Watch í Asíu, er ljóst að ýmsir brestir hafi verið í starfsemi SLMM en þrátt fyrir það hafi þeim tekist að lágmarka misþyrmingar almennra borgara. Nú sé þörfin á aðgerðum af hálfu Sameinuðu þjóðanna meiri en nokkru sinni fyrr.

Bæði íslensk og norsk stjórnvöld hafa varað við því að líkur séu á því að ofbeldi á Sri Lanka eigi eftir að aukast í kjölfar uppsagnar samningsins og Bandaríkjastjórn hefur lýst því yfir að hún sé ekki sátt við ákvörðun stjórnvalda á Sri Lanka. Með þessu verði enn erfiðara að leysa þau vandamál sem þar ríkja en áður. 

Yfir sjötíu þúsund manns, þar af margir almennir borgarar, hafa týnt lífi frá því að Tamíl Tígrar hófu vopnaða baráttu fyrir sjálfstæði Tamíl Tígra árið 1983. Segja Tamíl Tígrar að stjórnvöld á Sri Lanka hafi beitt þá harðræði og þeim sé mismunað. Þrátt fyrir að vopnahléssamkomulag hafi verið undirritað árið 2002 eru misþyrmingar daglegt brauð og er talið að yfir fimm þúsund manns hafi týnt lífi á síðustu tveimur árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert