Hvetur til hryðjuverka gegn Bush

Adam Gadahn
Adam Gadahn AP

Talsmaður al-Qaida, Bandaríkjamaðurinn Adam Gadahn, hvatti hryðjuverkamenn til þess í dag til að ráðast til atlögu gegn forseta Bandaríkjanna, George W. Bush, er hann sækir Miðausturlönd heim síðar í vikunni. Þetta kemur fram á nýju myndbandi sem Gadahn birti í dag.

Í myndbandinu sést Gadahn eyðileggja bandarískt vegabréf sitt sem táknræn mótmæli gegn stjórnvöldum í Washington.

Adam Gadahn er 28 ára gamall og er talið að hann hafist við á svipuðum slóðum og bin Laden, í fjallahéruðum á mörkum Afganistans og Pakistans. Gadahn hefur komið fram í mörgum myndböndum al-Qaeda og m.a. fordæmt hnattvæðingu. Hann er sagður stýra fjölmiðlaáróðri samtakanna gagnvart enskumælandi fólki.

Gadahn skrifaði á unglingsárum dóma fyrir tímarit sem fjallar um þungarokk. Hann fluttist til Pakistans árið 1998 og varð aðstoðarmaður Khalid Sheikh Mohammed, sem talinn er hafa verið aðalskipuleggjandi hryðjuverkaárásanna 2001.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert