Frumbyggjar fá ekki skaðabætur

Frumbyggjabörn í Ástralíu.
Frumbyggjabörn í Ástralíu. Reuters

Ríkisstjórn Ástralíu hafnaði í morgun kröfu frumbyggja í landinu um hundruð milljóna dollara skaðabætur vegna svokallaðrar stolnu kynslóðar þ.e. frumbyggjabarna sem tekin voru af fjölskyldum sínum.

Kevin Rudd, forsætisráðherra landsins, hefur heitið því að biðjast formlega afsökunar á umræddri stefnu en John Howard forveri hans í embætti neitaði alla tíð á ellefu ára valdatíð sinni að biðjast afsökunar á henni.

Jenny Macklin, ráðherra frumbyggjamála, hafnaði því hins vegar alfarið í morgun að afsökunarbeiðninni verði fylgt eftir með stofnun skaðabótasjóðs líkt og nokkrir leiðtogar frumbyggja hafa krafist. „Það sem við munum gera er að leggja fjármuni í heilbrigðis og menntakerfið og aukafjárveitingar til þjónustuaðila sem veita ráðgjöf þannig að hægt verði að aðstoða fólk við að hafa uppi á ættingjum sínum,” sagði hún í útvarpsviðtali í morgun. „Við munum ekki stofna skaðabótasjóð."

Michael Mansell, yfirmaður lögfræðideildar samtaka  frumbyggja í Tasmaníu, segir þetta hins vegar óviðunandi. „Forsætisráðherrann mun standa upp fyrir framan þjóðir heims og lýsa því yfir að honum þyki innilega leitt hvernig staðið var að málum. Gangi hann að því loknu í burtu og segi: En ég ætla ekki að bæta ykkur það upp, mun það gefa orðum hans holan hljóm."

Um 13.000 frumbyggjabörn voru tekin frá fjölskyldum sínum í Ástralíu fram á áttunda áratug síðustu aldar. Börnin voru alin upp á stofnunum eða hjá fósturfjölskyldum með það að markmiði að aðlaga þau að vestrænum lifnaðarháttum.

Eitt þessara barna Bruce Trevorrow vann skaðabótamál gegn ástralska ríkinu í ágúst á síðasta ári og í síðasta mánuði varaði Howard við því að afsökunarbeiðni myndi koma af staði flóði skaðabótamála vegna svipaðra mála.470.000 frumbyggjar eru nú á meðal íbúa Ástralíu sem eru  21 milljón.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert