Clinton vann í New Hampshire

Hillary Clinton kom á óvart og sigraði í forvali demókrata í New Hampshire þvert á skoðanakannanir. Barack Obama varð annar. Sigurinn er sagður blása miklu lífi í kosningabaráttu Clintons, sem varð þriðja í Iowa.

John McCain bar sigur úr býtum í forvali repúblikana og Mitt Romney varð annar.

Talið er að hörð kosningabarátta sé framundan milli þeirra Clintons og Obama í Nevanda og Suður-Karólínu. Samkvæmt skoðanakönnunum var allt útlit fyrir að Obama myndi sigra í New Hampshire.

McCain sýndi hvað í sér bjó í forvali repúblikana, en hann hafði nánast verið afskrifaður sl. sumar þar sem hann skorti bæði fé og starfsfólk til að taka þátt í kosningabaráttunni.

Mjótt var á mununum í New Hampshire, bæði hjá demókrötum og repúblikönum. Clinton hlaut 39% atkvæða en Obama hlaut 36%. John Edwards varð þriðji með 17% atkvæða. Hann sagði í nótt að hann myndi halda kosningabaráttunni áfram.

McCain sigraði Romney í prófkjöri repúblikana með 37% atkvæða á móti 32% hjá Romney. Mike Huckabee varð þriðji með 11% atkvæða og  Rudy Giuliani fékk 9%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert