Liðsmenn Sea Shepherd enn í haldi

Tveir liðsmenn Sea Shepherd samtakanna eru enn nauðugir um borð í japanska hvalveiðiskipinu Yushin Maru No. 2. Áhöfn skipsins tók mennina Benjamin Potts frá Ástralíu og Giles Lane, frá Bretlandi, höndum er þeir fóru óboðnir um borð í skipið fyrir tveimur sólarhringum. 

Áströlsk yfirvöld eru nú sögð vera að íhuga að hlutast til um málið en Sea Sheperd samtökin segja að áhöfn japanska skipsins hafi sett fram það skilyrði fyrir lausn þeirra að samtökin hætti afskiptum af hvalveiðum Japana á svæðinu. Ekki komi hins vegar til greina að ganga að þessum eða öðrum skilyrðum fyrir lausn mannanna. 

Fram kemur í fréttatilkynningu samtakanna að fjölskylda annars mannsins hafi lýst yfir stuðningi við hann en beðist undan því að veita fjölmiðlaviðtöl vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert