Ráðuneyti jafnað við jörðu á Gasasvæðinu

Ísraelsher jafnaði innanríkisráðuneyti Palestínumanna í Gasaborg við jörðu í loftárás í dag. Byggingin, sem var fjögurra hæða, var mannlaus er árásin var gerð en Palestínumenn segja að allt að tuttugu manns sem voru staddir í nágrenni hennar hafi slasast í árásinni. 

Einn Palestínumaður lést og tveir slösuðust er Ísraelsher gerði flugskeytaárás á bíl, sem þeir voru í í nágrenni mosku í Jabaliya flóttamannabúðunum á norðanverðu Gasasvæðinu, í morgun. Þá hafa Ísraelar nú lokað öllum landamærastöðvum sem liggja að Gasasvæðinu og geta Sameinuðu þjóðirnar og hjálparsamtök, sem hafa starfsemi á svæðinu, því ekki komið vistum þangað. 

Ísraelsk yfirvöld segja aðgerðirnar lið í hertum aðgerðum Ísraela til að binda enda á flugskeytaárásir Palestínumanna yfir landamærin til Ísraels en herskáir Palestínumenn hafa skotið 110 flugskeytum á Ísrael á undanförnum þremur sólarhringum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert