Tugþúsundir mótmæla

Þúsundir mótmæltu í Khartoum í Súdan í dag
Þúsundir mótmæltu í Khartoum í Súdan í dag AP

Tugir þúsunda mótmæltu lokun landamæra Gasa í Líbanon, Jemen og Súdan í dag. Í Rashidiyeh flóttamannabúðunum í suðurhluta Líbanon komu þúsundir mótmælenda saman, hrópuðu slagorð gegn Ísrael og Bandaríkjunum og hvöttu Arababandalagið til að grípa til aðgerða.

Landamæri Ísraels að Gasa hafa verið lokuð síðan í síðustu viku til að þvinga herská Palestínumenn til að hætta eldflaugaárásum á Ísrael. Neyðarástand er að skapast á svæðinu vegna skorts á eldsneyti, matvælum og lyfjum, en aðeins feinar neyðarsendingar hafa fengið að fara inn á Gasa-svæðið síðan landamærunum var lokað.

Í Khartoum, höfuðborg Súdan, söfnuðust nokkur þúsund háskólanemar saman og báru borða þar sem Ísraelsmenn voru hvattir til að láta af „fjöldamorðum á palestínskum börnum."

Þá söfnuðust einnig þúsundir manna saman á götum Sanaa, höfuðborgar Jemen, til að sýna samstöðu með Palestínumönnum og afhentu forsvarsmenn mótmælenda starfsmönnum Sameinuðu þjóðanna í borginni bréf þar sem alþjóðasamfélagið er hvatt til að grípa í taumana.

Ísraelar hleyptu bílum í dag inn á Gasa með eldsneyti og gas til raforkuframleiðslu og eldunar, en lögðu áherslu á að aðeins væri um „undantekningartilfelli" að ræða. Rafmagn komst þá aftur á í íbúðarhverfum Gasa-borgar, en þar hafði verið rafmagnslaust frá því á sunnudag.

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu hvatti í dag Ísraela til að opna aftur landamærin og varaði við hörmungum ef ástandinu yrði ekki aflétt. 1,4 milljónir manna búa á Gasa og er meginþorri íbúanna háður neyðaraðstoð alþjóðlegra hjálparstofnana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert