Egyptar ætla að halda landamærunum opnum

Stjórnvöld í Egyptalandi segjast ekki ætla að koma í veg fyrir að íbúar Gaza geti farið óhindrað yfir landamæri Egyptalands og Gaza-svæðisins, en landamærin hafa verið opin í fjóra daga. Þá segja þau að íbúarnir muni hljóta aðstoð við að koma sér upp vistum og öðrum nauðsynjum.

Egypskum öryggissveitum hefur verið fyrirskipað að aðstoða Palestínumenn við að komast leiðar sinnar þannig að þeir geti nálgast matvæli og nauðsynjavörur.

Að sögn Sameinuðu þjóðanna hefur um helmingur íbúa Gaza, um 700.000 manns, farið yfir landamærin í þessum tilgangi eftir að gat var sprengt stálvegg sem aðskilur svæðin sl. þriðjudag.

Egypskir lögreglumenn stóðu hjá í dag þegar fólk streymdi yfir landamærin. Í gær beittu þeir hins vegar kylfum og sprautuðu vatni á fólk í þeim tilgangi að snúa þeim aftur til síns heima.

Í síðustu viku kom Ísraelsstjórn í veg fyrir að íbúar Gaza fengju eldsneyti og hjálpargögn. Um 45 manns hafa fallið í aðgerðum Ísraelshers á svæðinu undanfarna 10 daga, meirihlutinn eru uppreisnarmenn.

Ísraelsher segir tilganginn með aðgerðunum vera þann að koma í veg fyrir árásir uppreisnarmanna á ísraelskt landsvæði. Tíu manns særðust minniháttar þegar þeir skutu um 200 eldflaugum yfir til Ísraels.

Mannréttindasamtök hafa mótmælt aðgerðum Ísraela.  

Palestínumenn sjást hér snúa aftur til síns heima eftir að …
Palestínumenn sjást hér snúa aftur til síns heima eftir að hafa farið yfir landamærin til Egyptalands. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert