Ísraelar ætla að hefja eldsneytisflutning til Gaza á ný

Olmert og Abbas funduðu í Jerúsalem í dag.
Olmert og Abbas funduðu í Jerúsalem í dag. Reuters

Ísraelar segjast ætla að hefja eldsneytisflutning til Gaza á nýjan leik. Hálfur mánuður er liðinn frá því Ísraelar komu í veg fyrir flutninginn, en aðgerðirnar voru liður í að svara eldflaugaárásum palestínskra uppreisnarmanna.

Alls verða 2,2 milljónir lítra af eldsneyti flutt til Gaza, en það er lágmarkið svo hægt sé að keyra orkuverin á svæðinu. Ekki liggur fyrir hvenær flutningurinn hefst.

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, átti jafnframt fund með Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínu, í dag og tjáði honum að Ísraelar muni gefa leyfi fyrir því að nauðsynjavörur verði fluttar til Gaza.

Leiðtogarnir ræddu ástandið á Gaza og þeir voru sammála um að það væri nauðsynlegt að koma íbúunum til aðstoðar sem fyrst.  

Uppreisnarmenn úr röðum Hamas gerðu gat á landamæri Gaza við Egyptaland með þeim afleiðingum að hundruð þúsunda Gaza-búa hafa farið yfir landamærin í leit af vörum og nauðsynjum.

Stjórnvöld í Egyptalandi hafa óskað eftir viðræðum við uppreisnarmennina tafarlaust svo binda megi enda á neyðarástandið sem hefur skapast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert