Suharto látinn

Suharto, fyrrum einræðisherra í Indónesíu, lést í nótt 86 ára að aldri. Suharto, sem var hershöfðingi og ríkti í landinu í 32 ár, átti við erfið veikindi að stríða síðustu vikurnar. Hann virtist þó vera á batavegi en í nótt lækkaði blóðþrýstingur hans skyndilega og tugir lækna voru kallaðir að sjúkrabeði hans en tókst ekki að bjarga lífi hans.

Suharto fór fyrir ríkisstjórn, sem margir telja vera eina þá harðneskjulegustu og spilltustu sem um getur í heiminum á 20. öld. Honum var velt úr sessi í lýðræðisbyltingu á árunum 1997-1998 og hefur síðan búið í stórhýsi í miðborg Jakarta. Suharto átti við heilsuleysi að stríða síðustu æviárin.

Sagnfræðingar áætla, að allt að 800 þúsund manns, sem taldir voru hliðhollir kommúnistum, hafi verið drepnir í upphafi valdatíma Suhartos á árunum 1965-1968. Hersveitir hans drápu 300 þúsund manns til viðbótar þegar lýðræðishreyfingar voru barðar niður í Papúa, Aceh og Austur-Tímor. 

Heilsuleysi Suhartos kom í veg fyrir að hægt væri að draga hann fyrir rétt og enginn hefur þurft að svara til saka fyrir þessi dráp.

Þá telur stofnunin  Transparency International, að Suharto og fjölskylda hans hafi dregið sér milljarða dala á valdatíma hans með því að fara ránshendi um sjóði indónesíska ríkisins.

Suharto.
Suharto. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert