Eldar kveiktir í Kaupmannahöfn

Frá Værebroskólanum í Kaupmannahöfn í nótt
Frá Værebroskólanum í Kaupmannahöfn í nótt Reuters

Kveikt hefur verið í á nokkrum stöðum í Kaupmannahöfn og í Óðinsvéum í kvöld, en mikill viðbúnaður í dönskum borgum vegna ótta við frekari mótmæli ungmenna, sem hafa undanfarin kvöld mótmælt birtingu mynda af Múhameð spámanni í dönskum blöðum.

Eldar eru sagðir hafa verið kveiktir í ruslagámum í norðvesturhluta Kaupmannahafnar, á Amager, í Gellerup og Valby. Þá hafa einhverjir ekdar verið kveiktir í Óðinsvéum.

Fyrr í kvöld mótmæltu um 200 manns á Norðurbrú friðsamlega og héldu uppi slagorðum gegn kynþáttafordómum.

Mótmælt hefur verið, einkum á Norðurbrú, undanfarin tvö kvöld og hefur verið mikill viðbúnaður lögreglu í dag þar sem búist er við miklum mótmælum um helgina.

Leiðtogar múslima í Danmörku hafa margir hvatt trúbræður sína til að sýna stillingu.  „Múhameð hefur ekki kennt ykkur að brenna bíla, skóla og opinberar byggingar. Hann hefur kennt ykkur að hegða ykkur á siðmenntaðan hátt", sagði ímaminn Mustafa Chendid við föstudagsbæn í dag. Hann ítrekaði þó þá skoðun sína að birting skopmyndarinnar umdeildu af spámanninum hafi verið heimskuleg og óþörf.

Öll stóru dönsku blöðin birtu í fyrradag skopmynd Kurt Westergaard af Múhameð spámanni til að lýsa yfir stuðningi sínum við teiknarann, en í vikunni komst upp um áætlun um að myrða hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert