Sjúkrahús brennt til kaldra kola

Fullbúið sjúkrahús sem staðið hafði ónotað í tvö ár brann til kaldra kola í bænum Maiduguri í Borno í norðurhluta Nígeríu í nótt. Sjúkrahúsið var byggt árið 2006 en héraðsyfirvöld höfðu neitað að taka það í notkun fyrr en forseti landsins hefði opnað það formlega. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Til hafði staðið að Umaru Yar'adua, forseti landsins, vígði sjúkrahúsið í næsta mánuði en fyrirrennari hans Olusegun Obasanjo hafði hvað eftir annað frestað fyrirhugaðri heimsókn sinni til héraðsins.  

Ali Modu Sheriff, héraðsstjóri í Borno, segir pólitíska andstæðinga sína hafa kveikt í byggingunni en á sjúkrahúsinu voru fullbúnar skurðstofur, gjörgæsludeild og lyflækningadeild og besti tækjabúnaður sem til var í landinu. Allt er þetta gerónýtt eftir eldsvoðann. 

Mikill skortur er á sjúkrarýmum í Borno og eru sjúkrahús þar yfirleitt illa tækjum búin. Nýlega létu hundruð barna lífið er mislingafaraldur braust úr í héraðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert