Abbas hyggst ekki fara að fordæmi Kosovo-Albana

Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínumanna, hefur útilokað að Palestínumenn lýsi einhliða yfir stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna líkt og aðstoðarmaður hans hefur hvatt til. „Við munum halda áfram viðræðum með það að markmiði að ná samkomulagi á árinu 2008 um endanlegt friðarsamkomulag sem nær m.a. til yfirráða yfir Jerúsalemborg,” segir hann. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

„Gangi það ekki eftir, lendum við á vegg munum við leita til Arabaríkjanna og taka ákvörðun varðandi framhaldið í samráði við ráðamenn þar,” sagði Abbas en nefndi þó enga möguleika í því sambandi. Áður hafði Yasser Abed Rabbo, sem á sæti í samninganefnd Palestínumanna í viðræðum þeirra við Ísraela, sagt að hann telji að Palestínumenn eigi að fara að fordæmi Kosovo-Albana náist ekki samkomulag við Ísraela innan ákveðinna tímamarka. „Miði viðræðum ekki í samkomulagsátt og séu þær ekki að skila því að dregið verði úr uppbyggingu landnemabyggða þá eigum við að stíga það skref að lýsa einhliða yfir sjálfstæði,” sagði hann.

„Kosovobúar eru ekkert betri en við. Við eigum meira tilkall til sjálfstæðis en Kosovo og við förum fram á stuðning Bandaríkjanna og Evrópusambandsins við sjálfstæði okkar. Þetta er það sem Ísraelar eru að reka okkur út í.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert