Mynd af Obama veldur uppnámi

Barack Obama í hefðbundnum sómölskum búningi þegar hann var í …
Barack Obama í hefðbundnum sómölskum búningi þegar hann var í heimsókn í Wajir. AP

Mynd, sem gengið hefur um netið af forsetaframbjóðandanum Barack Obama í hefðbundnum fatnaði ættflokks síns í Kenýa, hefur valdið óvæntu uppnámi í herbúðum Obama og Hillary Clinton, sem einnig býður sig fram sem forsetaefni demókrata.

Á myndinni sést Obama með hvítan vefjarhött og í hvítum kulfi, sem öldungur í bænum Wajir í norðausturhluta Kenýa hefur afhent honum. Faðir Obama var Kenýamaður og sonur hans heimsótti landið árið 2006.

Slúður- og fréttavefurinn The Drudge Report birti myndina í dag og sagði, að starfsmenn Clinton væru að dreifa myndinni. Var vitnað í tölvupóst frá ónefndum manni úr starfsliði frambjóðandans.

David Plouffe, kosningastjóri Obama, sakaði framboð Clinton um að reka einhverja þá skammarlegustu og mest móðgandi óttainnrætingarherferð, sem sést hefði í þessari kosningabaráttu.

En Maggie Williams, kosningastjóri Clinton, sagði í yfirlýsingu, að viðbrögð liðs Obama væru til þess fallin að æsa upp tilfinningar og draga athygli kjósenda frá málefnunum.

„Nú er nóg komið," sagði Williams. „Vilji starfsmenn Baracks Obama gefa til kynna, að mynd af honum í sómölskum þjóðbúningi til þess fallinn að valda sundrungu þá ættu þeir að skammast sín. Hillary Clinton hefur klæðst þjóðbúningum landa, sem hún hefur heimsótt og myndir af henni í slíkum búningum hafa birst víða."

Tveir sjálfboðaliðar á skrifstofu Clinton í Iowa sögðu af sér í desember eftir að þeir áframsendu falskan tölvupóst þar sem Obama var sagður vera múslimi, sem ætlaði að eyðileggja Bandaríkin. Obama er í kristnum söfnuði og segist aldrei hafa verið íslamstrúar. Hins vegar er stöðugur orðrómur á netinu um íslömsk tengsl hans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert