Írland viðurkennir sjálfstæði Kosovo

Kosovo-Albanar fagna stuðningsyfirlýsingu Bandaríkjastjórnar fyrr í mánuðinum.
Kosovo-Albanar fagna stuðningsyfirlýsingu Bandaríkjastjórnar fyrr í mánuðinum. AP

Írland hefur formlega viðurkennt sjálfstæði Kosovo og kemur fram í yfirlýsingu utanríkisráðherra Írlands, Dermot Ahern, að teknu tilliti til sögunnar sé óhugsandi að Kosovo verði áfram hluti Serbíu. Samþykktu allir ráðherrar í ríkisstjórn Írlands ákvörðun um um að styðja sjálfstæðisyfirlýsingu stjórnvalda í Kosovo frá því 17. febrúar.

„Ég veit að það er erfitt fyrir Serbíu að viðurkenna sjálfstæði Kosovo og ég vil taka það fram að viðurkenning á sjálfstæði Kosovo boðar ekki fjandskap Írlands gegn Serbíu," sagði Ahern.

Að sögn Ahern er sannleikurinn sá að átökin á síðari hluta tíunda áratugarins gerði yfirráð Serba yfir Kosovo óhugsandi.

Auk Írlands hafa Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Pólland, Danmörk, Belgía, Lettland, Eistland, Lúxemborg, Ástralía og Tyrkland, formlega viðurkennt sjálfstæði Kosovo. Jafnframt hafa ríki eins og Ísland og Noregur lýst því yfir að þau muni styðja sjálfstæði Kosovo.

Hins vegar hafa fimm ríki Evrópusambandsins lýst því yfir að þau muni ekki styðja sjálfstæði Kosovo, Spánn, Rúmenía, Grikkland, Kýpur og Slóvakía. Enda muni slíkt ýta undir þrýsting ýmissa þjóðernishreyfinga um að einstök héröð ríkja fái sjálfstæði. Má þar nefna Baskahérað á Spáni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert