Maríjúana hugsanlega lögleitt

Mikið af hassframleiðslu Jamaíka ratar til Bandaríkjanna.
Mikið af hassframleiðslu Jamaíka ratar til Bandaríkjanna. Reuters

Yfirvöld á Jamaíka íhuga nú að lögleiða maríjúana, fíkniefni sem þeir fjölmörgu Rastafarar sem búa eyjuna telja órjúfanlegan hluta af trúarbrögðum sínum. Sjö manna nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar rannsakar nú hugsanlega breytingu á löggjöfinni.

Margir innan lögreglunnar á Jamaíka telja að nauðsynlegt sé að lögleiða maríjúana þar sem stór jafnt sem smá fíkniefnamál sem tengjast maríjúananeyslu eyjaskeggja hrannast upp hjá dómstólum landsins.

„Við höfum rannsakað málið og rætt og erum nú að undirbúa skýrslu sem afhent verður forsætisráðherra innan tíðar," sagði aðstoðarforsætisráðherrann Kenneth Baugh.

2003 mælti nefnd skipuð af ríkisstjórninni með því að maríjúana yrði lögleitt í smærri skömmtum til einkaneyslu en tillagan varð aldrei að lögum.
Ástæðan fyrir því mun hafa verið sú að þingið óttaðist aðgerðir Bandaríkjanna.
Bandaríska utanríkisráðuneytið skýrði frá því fyrir helgi að Jamaíka væri stærsti maríjúanaframleiðandinn í Karíbahafi og miðstöð eiturlyfjasmygls til Bandaríkjanna.

Rastafarar hafa barist fyrir lögleiðingu allt frá stofnun hreyfingarinnar á fjórða áratug síðustu aldar. Segja þeir að maríjúanavíman færi þá nær hinu guðdómlega.

Það eru um 700 þúsund Rastafarar til víða um heim en yfirgnæfandi meirihluti þeirra býr þó á Jamaíka þar sem íbúafjöldinn er 2,6 milljónir.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert